skip to Main Content
420 3220 reykjaneshofn@reykjaneshofn.is

Saga Reykjaneshafnar

Í lok seinni heimstyrjaldarinnar 1945 átti ríkisjóður umtalsverðan gjaldeyrissjóð sem ákveðið var að verja m.a. til uppbyggingar í tengslum við sjávarútveginn. Á þessum tíma var algengt að bátar væru gerðir út annars staðar en frá heimahöfn hluta úr árinu. Það var almennt viðurkennt að góð hafnaraðstaða á einum stað væri hagsmunamál fleiri aðila en heimamanna. Skipuð var nefnd á alþingi árið 1942 sem átti að koma með tillögur sem gætu styrkt stöðu sjávarútvegsins.

Meðal þess sem kom út úr úr þeirri vinnu var að leggja til stofnun svokallaðra landshafna á vænlegum útgerðarstöðum á nokkrum stöðum á landinu. Með skilgreiningunni „landshöfn“ fólst að ríkissjóður sá að öllu leyti um kostnað við gerð og starfrækslu hafnarinnar sem væri að öllu leiti í eigu ríkisins. Ein tillaga nefndarinnar var að landshöfn yrði stofnuð í Njarðvík en niðurstaðan varð að landshöfnin í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum var stofnuð 1946 með lögum frá Alþingi. Með þessari lagasetningu var lagður grunnur að Reykjaneshöfn eins og hún er í dag.

Landshöfnin Keflavík-Njarðvík starfaði samkvæmt lögum um landshafnir til ársloka 1989 þegar ríkissjóður afsalaði sér eignum landshafnarinnar til sveitarfélaganna Keflavíkur og Njarðvíkur. Við yfirtöku sveitarfélaganna var ákveðið að þau rækju höfnina sameiginlega undir heitinu Höfnin Keflavík-Njarðvík. Við sameiningu sveitarfélaganna Hafnahrepps, Keflavíkurbæjar og Njarðvíkurbæjar í sveitarfélagið Reykjanesbæ í júní 1994 bættist Hafnahöfn við sem hluti Hafnarinnar Keflavík- Njarðvík. Í janúar 1997 var svo stofnað Hafnarsamlag Suðurnesja með samruna Hafnarinnar Keflavík-Njarðvík, hafnarinnar í Vatnsleysustrandarhreppi (nú Sveitarfélagið Vogar) og höfninni í Gerðarhreppi (nú Suðurnesjabær). Hafnarsamlaginu var slitið í lok árs 2002 og tók Reykjaneshöfn til starfa í núverandi mynd 5. desember 2002.

Reykjaneshöfn er í dag B-hluta fyrirtæki innan samstæðu sveitarfélagsins Reykjanesbæjar.

(Heimild: Saga Keflavíkur 1920-1949;1999 / Saga Njarðvíkur;1996 )

Back To Top