skip to Main Content
420 3220 reykjaneshofn@reykjaneshofn.is

Viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar innan hafnarsvæða

Hafnirnar í Reykjanesbæ
Helguvík – Keflavík – Njarðvík – Gróf -Hafnir
1. Mars 2017

Áætlun þessari skal skila til samþykktar Umhverfisstofnunar þann 1. Mars ár hvert. Afrit skal senda til Mengunarvarnarráðs hafna.

Sbr. Reglugerð um viðbrögð við bráðamengun hafs of stranda nr. 1010/2012

1.0 Inngangur

Viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar hafs og stranda er unnin í samræmi við reglugerð nr. 1010/2012. Þessi áætlun er gerð til þess að uppfylla þær kröfur sem reglugerðin gerir til
Reykjaneshafnar.

Lýst er aðstæðum á þeim hafnarsvæðum sem tilheyra Reykjaneshöfn, Helguvík, Keflavík, Njarðvík, Gróf og Hafnir. Áhættumat á aðstæðum á þessum hafnarsvæðum byggir á þeim aðstæðum sem til staðar eru. Tilgangurinn með áætluninni er að geta brugðist eins fljótt og auðið er við þeim aðstæðum sem koma upp ef komi til bráðamengunar innan hafnarsvæðis Reykjaneshafnar.
Áætlunin lýsir þeim viðbrögðum sem Reykjaneshöfn hugsar sér að framkvæma eða nota vil viðmiðunar við framkvæmd viðbragða og aðgerða vegna bráðamengunar innan hafnarsvæðis. Það er von Reykjaneshafnar að þessi áætlun geti stuðlað að árangursríkari og skilvirkari viðbrögðum, sem og aðstoðar starfsfólk Reykjaneshafnar og aðra sem að málinu kunna að koma við að skipuleggja og bregðast við aðstæðum með skömmum fyrirvara.

Hafnarstjóri og hafnarverðir Reykjaneshafnar leggja sig fram við að gengið sé vel um hafnarmannvirki og hafnarsvæði hafnarinnar. Meðferð úrgangs og farmleifa frá skipum fer eftir ákveðnum reglum sem settar hafa verið og eru m.a. hægt að sækja á heimasíðu Reykjaneshafnar. Aðilar/fyrirtæki sem starfa á starfssvæði hafnarinnar, skulu halda nágreni sínu snyrtilegu og ganga vel um hafnarsvæðið, sem og lóðir sínar á hafnarsvæðinu. KALKA (Sorpeyðingarstöð Suðurnesja) hefur starfstöð sína í Helguvík og þar fer fram flokkun og eyðing á farmleifum og sorpi frá hafnarsvæði Reykjaneshafnar.

Áætlun þessari skal skila til samþykktar Umhverfisstofnunar þann 1. Mars ár hvert. Uppfæra þarf áætlunina og setja fram ásamt skýrslu um mengunarvarnaæfingar, mengunarvarnarbúnað og mengunaratvik á hverju ári. Afrit skal senda til Mengunarvarnarráðs hafna.

Viðbragðsáætlun þessi skal aðgengileg öllum þeim sem þess óska og verður hún m.a. aðgengileg á skrifstofu Reykjaneshafnar.

2.0 Markmið og gildissvið

Markmið Reglugerðar um Viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda nr. 1010/2012 er að draga úr tjóni eða koma í veg fyrir tjón vegna bráðamengunar eftir því sem kostur er. Einnig að samræma þær aðgerðir sem beita þarf þegar haf og strendur mengast skyndilega af olíu eða öðrum mengandi efnum, eða slíkt sé yfirvofandi.

Reglugerðin gildir um óhöpp og atvik á sjó og landi sem leiða til hvers konar bráðamengunar hafs og stranda, viðbúnað og viðbrögð við þeim hér á landi, í lofthelgi og í mengunarlögsögu Íslands. Um mengunaróhöpp á landi gilda lög um brunavarnir. Komi til þess að almannavarnaástand skapist gilda lög um almannavarnir.

Undanþegnar reglugerð þessari eru aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að vernda mannslíf eða tryggja öryggi, svo og aðgerðir sem kunna að vera nauðsynlegar vegna óviðráðanlegra ytri atvika, sbr. og ákvæði reglugerðar um leit og björgun vegna sjófarenda og loftfara nr. 71/2011.

3.0 Tilkynningar og tilkynningarskylda vegna bráðamengunar

Tilkynningarskylda hvílir á þeim sem veldur mengun innan hafnarsvæðis eða verður var við hana skv. 4 grein reglugerðar um viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda nr. 1010/2012.

Hver sá sem er valdur að eða verður var við bráðamengun innan hafnarsvæðis skal tafarlaust tilkynna um bráðamengunina til hafnarstjóra sem grípur til viðeigandi ráðstafana. Tilkynna ber einnig
um óhöpp þar sem mengandi efni hafa lekið úr umbúðum á bátum og skipum sem geta valdið mengunaróhöppum.

  • Við slíka tilkynningu metur starfsmaður Reykjaneshafnar ásamt Hafnarstjóra hvort leita skuli aðstoðar utanaðkomandi aðila við hreinsun s.s. Brunavarna Suðurnesja.

Hver sá sem er valdur að eða verður var við bráðamengun á sjó utan hafnasvæða skal tafarlaust tilkynna um bráðamengunina til vaktstöðvar siglinga sem virkjar viðeigandi viðbrögð Landhelgisgæslu Íslands eftir atvikum og í samræmi við ákvæði laga og reglugerðar þessarar. Vaktstöð siglinga kallar til vakthafandi aðila innan Umhverfisstofnunar sem gerir viðeigandi ráðstafanir í samræmi við viðbragðsáætlanir og ákvæði 20. gr.

Hver sá sem er valdur að eða verður var við mengunaróhöpp eða atvik á landi skal tilkynna það tafarlaust til viðkomandi slökkviliðs í samræmi við lög um brunavarnir, Neyðarlínan sími 112.

Sé talið að mönnum geti stafað hætta af menguninni ber að tilkynna landlækni það tafarlaust.

Sé mengunin þess eðlis að hún geti valdið hættu fyrir íbúa eða eignir skulu aðgerðir framkvæmdar í samráði við viðkomandi lögreglustjóra. Ef umfang eða eðli mengunar er slíkt að ætla megi að
almenningi stafi hætta af skal nota neyðarskipulag almannavarna.

Reykjaneshöfn hefur það að viðmiði að þegar magn mengandi efna er orðið 50-100 lítrar eða meira skuli það tilkynnt til viðkomandi heilbrigðiseftirlits og Umhverfisstofnunar (annað hvort gerist það í gegnum Reykjaneshöfn, lögreglu eða Brunavarnir Suðurnesja.

4.0 Lýsing á hafnarsvæðum Reykjaneshafnar

Reykjaneshöfn samanstendur af rekstri 5 hafna, þ.e. Helguvíkur, sem skiptist í Olíuhöfn og fraktflutningahöfn, Keflavík sem er fraktflutningahöfn ásamt fiskiskipahöfn, Njarðvík sem er
fraktflutningahöfn og fiskiskipahöfn, Grófin og Hafnir sem eru smábátahafnir.

4.1 Helguvík

Fraktskipahöfn Helguvíkur. Ofan við fraktskipahöfnina eru staðsettir geymslutankar Aalborg Portland fyrir sement. Einnig er þar flokkunarstöð og hrognavinnsla Helguvíkurmjöls og
loðnubræðsla Síldarvinnslunnar. Þar nokkuð ofar er svo iðnaðarsvæði Helguvíkur sem telur m.a. starfsemi Sameinaðs Sílikons, Norðuráls, Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja Kölku ofl.
Olíuhöfn Helguvíkur. Olíuskip leggjast að olíuhöfninni sem samanstendur af fjórum steyptum kerjum sem brúað er á milli og leggjast olíuskipin að þessum kerjum. Olíustöð Olíudreifingar
er svo nokkuð ofar við Olíuhöfnina, sem samanstendur af geymslutönkum og þjónustubyggingum Olíustöðvarinnar.

4.2 Keflavík

Keflavík er flutningahöfn og fiskiskipahöfn. Höfnin er búin þremur bryggjukrönum. Ofan við höfnina eru hafnarskrifstofur Reykjanesbæjar, sem og íbúabyggð og ýmis iðnaðarstarfssemi.

4.3 Njarðvík

Njarðvík er flutningahöfn og fiskiskipahöfn. Á höfninni er ísturn Reykjaneshafnar. Ofan við höfnina er ýmis iðnaðarstarfsemi, sem og Skipasmíðastöð Njarðvíkur sem sinnir viðhaldi og
endurbyggingum á skipum og bátum.

4.4 Grófin

Grófin er smábátahöfn, við höfnina er skessuhellirinn sem laðar að sér mikið af ferðamönnum, olíuafgreiðsla er í höfninni fyrir smábáta. Einn bryggjukrani er í höfninni.

Ofan við höfnina er safna og menningarhús Duus, veitingastaður, afgreiðsla sérleyfisbifreiða og hótel, sem og íbúabyggð.

4.5 Hafnir

Hafnir er smábátahöfn. Höfnin hefur verið lítið notuð af bátum síðustu ár. Ofan við höfnina er iðnaðarhús.

5.0 Áhættumat hafnarsvæða

Tafla fyrir áhættumat hafnarsvæða.

Hafnarsvæði Líkur á bráðamengunaróhappi Afleiðingar bráðamengunar óhapps Þörf á aðstoð vegna óhapps
Helguvík
frakt
Miðlungs Miklar Já/fjöldi eftir atvikum
Helguvík
olíugarður
Mest Miklar Já/fjöldi eftir atvikum
Keflavík Litlar Miklar Já/fjöldi eftir atvikum
Njarðvík Litlar Miklar Já/fjöldi eftir atvikum
Grófin Litlar Miklar Já/fjöldi eftir atvikum
Hafnir Litlar Miklar Já/fjöldi eftir atvikum

Eftirfarandi flokkur er að líkum:

  • Litlar, litlar líkur eru á óhappi.
  • Miðlungs, nokkrar líkur eru á óhappi.
  • Mest, talsverðar líkur eru á óhappi.

6.0 Viðbragðsáætlun

Tilkynna skal um mengunaróhöpp til Reykjaneshafna. Hjá Reykjaneshöfnun er vakt allan sólarhringinn, Hafnarverðir sími 420-3224, Vigtarmenn 420-3227.

Starfsmenn hafnarinnar meta þörf á viðbrögðum, í samráði við Hafnarstjóra Reykjaneshafnar. Metið er m.a. hvort þörf sé á utankomandi aðstoð, t.d. aðstoð Brunavarna Suðurnesja.

Höfnum er skipt í þrjá flokka hvað varða viðbrögð og mengunarvarnabúnað vegna bráðamengunar skv. 5. gr. reglugerðar nr. 1010/2012.

Flokkun hafna er eftirfarandi:

Flokkur I: Stórar olíuhafnir, iðnaðarhafnir og stærri flutningahafnir. Til þessara hafna koma olíuskip sem geta borið meira en 3.000 tonn af olíu og/eða skip stærri en 5.000 brúttótonn. Við höfnina er olíubirgðastöð og/eða margvísleg mengandi starfsemi.

Flokkur II: Meðalstórar fiskihafnir og vöruflutningahafnir þar sem skip allt að 5.000 brúttótonn eða allt að 100 m löng koma alla jafna að bryggju.

Flokkur III: Smábáta- og skemmtibátahafnir þar sem bátar styttri en 25 m leggjast yfirleitt að bryggju.

Flokkur Hafnarsvæði skv. skilgreiningu reglugerðar Lýsing á flokki skv. reglugerð. Lágmarks mengunarvarnar- búnaður skv. reglugerð.
Flokkur I Helguvík Stórar olíuhafnir, iðnaðarhafnir og stærri flutningahafnir. Til þessara hafna koma olíuskip sem geta borið meira en 3.000 tonn af olíu og/eða skip stærri en 5.000 brúttótonn. Við höfnina er olíubirgðastöð og/eða margvísleg mengandi starfsemi. 150-300 m af flotgirðingu, 1 olíuupptökutæki, ísogsefni, dreifiefni.
Flokkur II Meðalstórar fiskihafnir og vöruflutningahafnir þar sem skip allt að 5.000 brúttótonn eða allt að 100 m löng koma alla jafna að bryggju. 100-200 m af flotgirðingu, ísogsefni, dreifiefni.
Flokkur III Keflavík *
Njarðvík*
Grófin
Hafnir
Smábáta- og skemmtibátahafnir þar sem bátar styttri en 25 m leggjast yfirleitt að bryggju. ísogsefni.

Við aðalgarðinn í Keflavík og Norðurgarðinn í Njarðvík getur skilgreining í Flokki II átt við, en lítil skipaumferð hefur verið á þessum bryggjum sl. ár og ekki hægt að tala um að þau komi alla jafna að bryggju, heldur er um að ræða óreglulega skipaumferð og þá að mestu leiti með malar, ösku eða sandflutninga, þó haf komið smærri skemmtiferðaskip að bryggju í keflavík til áhafnaskipta.

Mengunarvarnabúnaðar sem höfnin á er geymdur í Helguvík, sem og í Hafnarskrifstofunni að Víkurbraut 11.

Sjá lista yfir mengunarvarnabúnað í viðhengi 1.

Nýting búnaðar sem Reykjaneshöfn á og geymir á sínum hafnarsvæðum krefjast ekki sérstakra reglubundinna æfinga.

7.0 Kostnaðar og gjaldtaka vegna bráðamengunar hafna.

Meginreglan við uppgjör kostnaðar vegna mengunaróhapps er sú, að mengunarvaldur greiðir fyrir aðgerðir. Það kemur þá í hlut Reykjaneshafnar að kefja mengunarvald um greiðslu í samræmi við gildandi lög vegna kostnaðar sem af mengunaróhappi hlýst.

Gjald fyrir ráðstafanir sem gripið er til við mengunaróhöpp er innheimt skv. gjaldskrá Reykjaneshafnar eða útseldri þjónustu þjónustufyrirtækja sem vinna að hreinsun bráðamengunarinnar.

elast gjöldin einkum í:

  • Einingaverði fyrir útseldar vinnustundir starfsmanna og tækjabúnaðar sem að aðgerð koma.
  • Gjald fyrir notkun mengunarvarnabúnaðar.
  • Gjald fyrir notkun annarra tækja og búnaðar svo sem dráttarbáts.
  • Kostnaður sem á höfnina fellur vegna sérstakra aðgerða sem nauðsynlegt reynist að grípa til s.s. leigu á viðbótarbúnaði, aðkeyptri vinnu verktaka ofl.
  • Kostnaður vegna skemmda sem kunna að verða á eignum, aðstöðu eða búnaði hafnar eða annarra sem að aðgerðum koma. Kostnaður sem sannarlega geta hlotist vegna annarra ástæðna, sem bráðamengunin veldur.

Um þetta er fjallað í gjaldskrá Reykjaneshafnar.

Lögveðsréttur í viðkomandi skip eða fasteign fylgir innheimtu gjalds skv. þessum ákvæðum.

Viðhengi 1
Back To Top