skip to Main Content
420 3220 reykjaneshofn@reykjaneshofn.is

Nú er úti veður……….

Veðurfar frá áramótum hefur verið með versta móti og varla hundi út sigandi þessa fyrstu ellefu dag ársins. Þegar birtustig dagsins hefði átta að vera með mesta móti upp úr hádegisbili hvers dags hefur varla verið ratljós vegna þess hversu þungskýja hefur verið. Hver lægðin á fætur annarri hefur skollið á landinu með látum og víða ollið tjóni. Við hjá Reykjaneshöfn höfum sloppið nokkuð vel miðað við sumar aðrar hafnir en fengum þó að kenna á því á Nýársdag. Þá gengu brimskaflarnir með ofsa yfir varnargarðinn við Njarðvíkurhöfn með tilheyrandi grjóthríð og var hafnarsvæðið eins og eftir stórskotahríð þegar veðrið gekk niður. Tók það hafnarstarfsmenn nokkra daga að koma svæðinu í eðlilegt horf eftir þann ágang. Til allra lukku voru veðuráttir okkur hagstæðar þegar mesti straumur með áhlaðanda gekk yfir landið fimmtudaginn 6. janúar s.l. en dýpt lægðarinnar olli því að sjávarhæð var um 50 cm hærri en við eðlilegar aðstæður. Sjávarhæð í höfnum Reykjaneshafnar við þetta ástand náði um fimm metrum yfir stórstraumsfjöru.

Þó svo að veðrið hafi látið ílla þessa fyrstu daga mánaðarins hefur verið fjórum sinnum landað þessa daga, samtals rúmlega fjörutíu tonnum. „Ekki er svo með öllu íllt…“

Back To Top