skip to Main Content
420 3220 reykjaneshofn@reykjaneshofn.is
Hafnahöfn

Lýsing á aðstæðum

Hafnarsvæði í Höfnum er 3,95 ha. að stærð. Hafnarkanturinn er 180 metrar að lengd að vestanverðu með 115 metra viðlegukanti að austanverðu innan við bryggjuhausinn. Bryggjuhausinn er 12 metrar að breidd og 22 metrar að lengd. Þekjan er 7 metra breið meðfram viðlegukantinum.

Grunnur hafnarkantsins er grjótgarður sem þekjan er steypt yfir og skjólveggur steyptur á útbrún vestanverður.  Mesta dýpi er 2 metrar á stórstraumsfjöru innan við bryggjuhausinn. Grjótvörn er vestan við hafnarkantinn til varnar ágangi sjávar.

Saga hafnarinnar

Töluverð útgerð var frá Höfnum á Reykjanesi á árum áður þótt hafnaraðstæður væru erfiðar. Milli róðra voru bátar annað hvort dregnir á land eða lagðir við festar í vari, en í vondum veðrum og brimi voru bátar þó að jafnaði í hættu þótt svo væri. Löndun var yfirleitt erfið og fyrirhafnasöm þó veður væri gott, hvað þá ef veður voru slæm. Fyrstu hafnarframkvæmdir í Höfnum áttu sér stað á árunum upp úr 1930 með byggingu bátabryggju neðan við kauptúnið. Var framkvæmdin á vegum einstaklinga eins og að jafnan á þessum árum en seinna meir tók sveitarfélagið yfir rekstur hennar.

Bryggjan bætti mjög allar aðstæður þó betur mætti gera en árið 1944 var bryggjan betrumbætt með því að lengja hana fram í stórstraumsfjöruborð. Þetta þótti ekki fullnægjandi og duga skammt. Bygging núverandi hafnaraðstöðu og viðlegukants í Höfnum má rekja til árana 1951-1959 og var viðlegukanturinn staðsettur 200 metrum fyrir austan bryggjuna.

Dýpi við viðlegukant er lítið og erfitt um vik að dýpka þar sem botninn er klapparbotn og dýpkun því ekki möguleg nema með klapparsprengingum. Betrumbætur hafa verið litlar sem engar frá 1959 enda þörfin takmörkuð vegna minnkandi umsvifa eftir 1960. Í dag er engin starfsemi á Hafnarhöfn.

Heimild: Hafnir á Reykjanesi;2003

Back To Top