skip to Main Content
420 3220 reykjaneshofn@reykjaneshofn.is
Helguvíkurhöfn

Lýsing á aðstæðum

Hafnarsvæðið í Helguvík er 190,6 ha. að stærð. Höfnin samanstendur af 100 metra Olíubryggju í austurhluta hafnarinnar og 150 metra viðlegukanti í norðurhluta hennar, Norðurbakka.

Grjótvarnargarður sem skýlir Helguvíkurhöfn er hluti af olíubryggjunni. Olíubryggjan er byggð upp af fjórum kerum sem sitja á uppfylltum grjótpúða á sjávarbotni en við hana er 13,5 metra dýpi. Norðurbakki er stálþilskantur með lágmarksdýpi 10 metra við viðlegukant. Lágmarksdýpi innan hafnarsvæðisins er 10 metrar við Norðurbakka en mesta dýpi innan hafnar er um 16 metrar.

Saga hafnarinnar

Uppbygging Helguvíkurhafnar hófst í framhald af samkomulagi milli utanríkisráðuneytisins f.h. Atlandshafsbandalagins (NATO og Keflavíkurbæjar frá 21. apríl 1983 um land og aðstöðu til uppbyggingar hafnaraðstöðu í Helguvík í tengslum við eldsneytisflutninga fyrir herstöðina og flugvöllinn á Miðnesheiði. Atlantshafsbandalagið fjármagnaði byggingu grjótvarnargarðs og annarra hafnarmannvirkja en þar var um að ræða fjögur steinsteypt ker sem mynduðu viðlegukant fyrir skipakomur.

Framkvæmdir stóðu yfir frá 1987 til 1989 en fyrsta skipakoman var 29. ágúst 1989. Í samningnum var ákvæði um að bæjaryfirvöld mættu byggja hafnarmannvirki innan grjótvarnargarðsins fyrir almennan hafnarekstur. Höfnin Keflavík-Njarðvík hóf síðan framkvæmdir við 150 metra viðlegukant á árinu 1994 sem lauk árið 1997. Nýting viðlegukantsins hófst meðan á framkvæmdum stóð og var fyrstu loðnu landað þar í febrúar 1995.

Móttakandi var flokkunarstöð Helguvíkurmjöls hf. sem þá var nýrisin á hafnarsvæðinu í Helguvík. Í ágúst árið 2008 hófust dýpkunarframkvæmdir í Helguvíkurhöfn þegar dýpkað var innan hafnarsvæðis allt upp í 14,5 metra miðað við fyrirhugaða framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Lauk þeirri framkvæmd í árslok 2009. Dýpkunarefnið, alls um 300.000 m3, var notað í uppbyggingu á nýjum 150 metra grjótvarnagarði við höfnina sem jók öryggi skipa við innsiglingu og innan hafnarsvæðis til muna.

Back To Top