skip to Main Content
420 3220 reykjaneshofn@reykjaneshofn.is

Reykjaneshöfn

Reykjaneshöfn er þjónustufyrirtæki í eigu Reykjanesbæjar og tók til starfa í núverandi mynd 5. desember 2002. Hafnaraðstaðan samanstendur af smábátahöfninni í Gróf, Hafnahöfn, Helguvíkurhöfn, Keflavíkurhöfn og Njarðvíkurhöfn. Athafnasvæði hafnaraðstöðu er 30.415 m2 að stærð. Reykjaneshöfn er B-hluta fyrirtæki innan samstæðu Reykjanesbæjar.

Starfsmenn og stjórn

Starfsmenn Reykjaneshafnar verða fimm árið 2021, þrír hafnsögumenn, einn almennur hafnarstarfsmaður og hafnarstjóri. Hafnsögumennirnir vinna samkvæmt vaktafyrirkomulagi. Hafnarstjóri Reykjaneshafnar er Halldór Karl Hermannsson.

Stjórn Reykjanesh$afnar er skipuð fimm aðalmönnum:

 • Hjörtur M Guðbjartsson formaður (S)
 • Hanna B Konráðsdóttir varaformaður (D)
 • Kristján Jóhannsson (Y)
 • Sigurður Guðjónsson (B)
 • Úlfar Guðmundsson (M).

Starfsemi og hafnaraðstaða

Kjarnastarfsemi Reykjaneshafnar er almenn hafnarstarfsemi í samræmi við Hafnarlög nr. 61/2003, lög um siglingavernd nr. 50/2004, reglugerð nr. 326/2004, samþykkt Reykjaneshafnar nr. 982/2005 auk annarra laga og reglugerða sem ná til hafnarreksturs eða hluta hans.

Í rekstri Reykjaneshafnar er tekið mið af stefnu Reykjanesbæjar til ársins 2030 og þau gildi sem þar eru sett fram: Framsækni, Virðing og Eldmóður. Í áhersluatriðum er sérstaklega horft til Vistvæns samfélags og Fjölbreyttra starfa ásamt þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem þar eiga við.

Til að stuðla að Vistvænu samfélagi mun Reykjaneshöfn stefna að því:

 • að 2030 verði landtenging rafmagns til staðar fyrir alla viðskiptavini Reykjaneshafnar óháð orkuþörf viðkomandi skipa og stuðla þar með að betri loftgæðum í umhverfinu. (Heimsmarkmið nr. 7.1 og 12.2)
 • að móttaka og meðhöndlun úrgangs á hafnarsvæðinu verði skilvirkari með það að leiðarljósi að lágmarka förgun og auka endurnýtingu. (Heimsmarkmið nr. 11.6, 12.4 og 12.5)

Til að stuðla að Fjölbreytni starfa mun Reykjaneshöfn stefna að því:

 • að efla innviði sína til þess að auka þjónustugetu við viðskiptavini hafnarinnar á sem flestum sviðum og skapa þar með grundvöll að fjölbreyttari atvinnusköpun. (Heimsmarkmið nr. 8.2, 8.9 og 9.1)

Almenn hafnarstarfsemi

Opið er fyrir almenna hafnarstarfsemi allan sólarhringinn allt árið um kring. Daglegur vinnutími er frá kl. 08:00 til kl. 17:00 virka daga en starfsmann á bakvöktum sinna útköllum á öðrum tímum. Til skoðunar er að endurskoða þetta fyrirkomulag m.a. með tilliti til opnunartíma í kringum stórhátíðir.

Skipakomur og flutningar

Samdráttur er í skipakomum og flutningum í ár miðað við fyrri ár. Fyrstu tíu mánuði ársins hafa 20 fraktskip komið til hafnar hjá Reykjaneshöfn miðað við 28 fraktskip á sama tímabili í fyrra. Samhliða minni skipaumferð hefur minna vörumagn farði um hafnir Reykjaneshafnar og munar þar mest um innflutning á eldsneyti í olíubirgðastöðina í Helguvík. Ástæða þessa minnkandi umsvifa má að mestu rekja til alheimsfaraldursins COVID 19 sem geisað hefur um allan heim frá því í upphafi ársins og ekki sér enn fyrir endann á, en afleiðingar hans eru m.a. að flugsamgöngur milli landa hafa minnkað stórlega. Gert er ráð fyrir að þessi þróun snúist við þegar séð verður fyrir endann á faraldrinum og skipakomur með auknu vörumagni færast til fyrra horfs.

Haustið 2018 undirritaði Reykjaneshöfn samstarfsamning við Cruise Iceland sem eru regnhlífasamtök fyrirtækja úr ýmsum greinum atvinnulífsins sem vilja markaðssetja Ísland sem ákjósanlegan viðkomustað fyrir skemmtiferðaskip. Síðan þá hefur Reykjaneshöfn unnið með Markaðsstofu Suðurnesja og Reykjanesbæ í markaðssetningu Reykjaness og Reykjaneshafnar sem ákjósanlegan kost fyrir smærri farþegaskip, þó að sú vinna hafi að mestu legið niðri þetta árið vegna ástandsins. Um leið og færi gefst verður haldið áfram þar sem frá var horfið og er þess vænst að árangur skili sér í framhaldi.

Afli og landanir

Landaður afli hjá Reykjaneshöfn er heldur minni það sem af er árinu en áætlanir ársins gerðu ráð fyrir. Botnfiskaflinn er með minnsta móti og makrílveiði handfærabáta brást alveg. Landaður botnfiskafli hjá Reykjaneshöfn hefur verið nokkuð jafn á undanförnum árum, aflamangið hefur verið að sveiflast milli fjögur til fimmþúsund tonna af lönduðum afla eða að meðaltali um 4.500 tonn á ári. Gert er ráð fyrir að aflagjaldstekjur ársins í ár verði á pari við fjárhagsáætlun ársins og sambærilegar tekjur á árinu 2021.

Tekjur af almennri starfsemi

Alheimsfaraldurinn COVID 19 veldur mikilli óvissu varðandi rekstrartekjur Reykjaneshafnar á árinu 2021. Bóluefni við faraldrinum eru að koma fram og er þess vænst að áhrifa bólusetningar fari að gæta þegar líða tekur á næsta ár en samkvæmt útkomuspá ársins eru tekjur núverandi árs aðeins 56% af áætluðum tekjum. Í fjárhagsáætlun ársins 2021 er gert ráð fyrir að aðstæður í skipa- og flugumferð batni er líður á það ár miðað við árið í ár. Gert er ráð fyrir auknum tekjum miðað við núverandi starfsár, þ.e. 30% hærri en útkomuspá þessa árs hljóðar upp á en þó aðeins 73% af tekjum samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2020.

Þjónusta

Ýmis þjónusta er í boði fyrir þau skip og þá báta sem koma til hafna Reykjaneshafnar. Þar er m.a. um að ræða sölu á rafmagni, köldu vatni og móttöku úrgangs. Gengið er út frá því að þær tekjur sem af þessum þáttum hljótast standi undir þeim kostnað sem þeir grundvallast á. Stærri þjónustuþættir eru síðan þjónusta hafnsögu- og dráttarbátsins Auðuns auk þess sem höfnin rekur Ísturninn sem er verksmiðja til ísframleiðslu.

Auðunn

Í samræmi við aukna skipaumferð á síðustu árum hafa tekjur af þessari starfsemi verið stígandi, en dregist saman i ár vegna minnkandi skipaumferðar. Auk þess að sinna hlutverki hafnsögu- og dráttarbáts í tengslum við komu fraktskipa hefur Auðunn einnig veitt aðstoð þegar skip og bátar hafa verið að fara í eða úr slipp hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Á næsta ári er gert ráð fyrir að þjónusta Auðuns fylgi þeirri þróun sem verður í skipaumferð til hafna Reykjaneshafnar.

Ísturn

Ísframleiðslugeta Ísturnsins er um 25 tonn af ís á sólarhring. Selt magn hefur aukist undanfarin ár í samræmi við aukna makrílveiði handfærabáta á svæðinu en er þó minni í ár en s.l. tvö ár enda brást makrílvertíðin algerlega. Gert er ráð fyrir sambærilegri íssölu á næsta ári eins og í ár.

Framkvæmdir og viðhald

Til að viðhalda þjónustugetu Reykjaneshafnar þarf stöðugt að sinna endurbótum og endurnýja búnað. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir minni fjármunum til að sinna viðhaldsþörf en hefur verið undanfarin ár sem skýrist af því að rekstrartekjur Reykjaneshafnar eru áætlaðar minni en þær hafa verið á síðustu árum vegna COVID 19. Í forgangi viðhaldsverkefna á næsta ári eru endurbætur á raftengikerfi hafnarinnar en öðrum viðhaldsverkefnum verður sinnt eftir þörfum.

Í fjárfestingum á næsta ári er horft til þeirrar uppbyggingar sem fyrirhuguð er í Njarðvíkurhöfn með uppbyggingu skjólgarðs og dýpkunar innan hafnarsvæðis. Forsenda þeirrar framkvæmdar er þó að til hennar fáist ríkisstuðningur í gegnum framlög úr Hafnabótasjóði. Aðrar fjárfestingar eru í algeru lágmarki.

Fasteignir

Fasteignir á vegum Reykjaneshafnar eru Víkurbraut 11, Ísturninn í Njarðvík, skemma við Njarðvíkurhöfn og skemma við Helguvíkurhöfn. Engar fjárfestingar eru fyrirhugaðar við þessar fasteignir á komandi árum en þær þurfa sitt viðhald.

Áhöld og tæki

Fjórir löndunarkranar eru hjá Reykjaneshöfn, einn í Grófinni og þrír á löndunarsvæðinu í Keflavík. Þrír þeirra eru keyptir fyrir 1992 og sá fjórði er frá árinu 2017. Mikið slit er komið í eldri kranana og þarf að skoða það á komandi árum hvernig að endurnýjun þeirra verði staðið.

Ökutæki Reykjaneshafnar eru:

 • Case dráttarvél árg. 2005
 • Renault Kangoo sendibifreið árg. 2012
 • Renault Master pallbíll árg. 2019
 • Man vörubifreið árg. 1997.

Ekki er gert ráð fyrir endurnýjun þessara ökutækja á árinu 2020.

Hafnsögu- og dráttarbátur

Auðunn var sjósettur 1989 og hefur þjónað hjá Reykjaneshöfn síðan. Báturinn sökk við björgunarstörf í Sandgerðishöfn 2009 og var mikið endurnýjaður í framhaldinu. Árlega er báturinn skoðaður með tilliti til haffæris og á tveggja ára fresti þarf hann að fara í slipp til skoðunar. Töluverður kostnaður fylgir slíku og þó sérstaklega þegar slippkostnaðurinn fellur til. Brugðist er við viðhaldsþörf þegar hún fellur til og er hún því sveiflukennd.

Ísturn

Í Ísturninum eru þrjár ísvélar sem framleiða þegar best gengur um 25 tonn af ís á sólarhring. Eru allar vélarnar mjög gamlar eða frá því í kringum 1990. Þurfa þær reglulegt viðhald sem er misjafnlega mikið hverju sinni. Ekki er fyrirhugað að endurnýja þessar vélar á næsta ári.

Hafnarsvæði

Hafnarsvæði Reykjaneshafnar þarf stöðuga umhirðu og reglulegu viðhaldi. Árlega þarf að mála viðlegukanta, yfirfara og endurnýja fríholt, yfirfara og endurnýja lýsingu, yfirfara landtengingar, endurnýja vatnslagnir, endurbæta hurðir, karma og glugga á tengirýmum o.fl.

Smábátahöfnin í Gróf

Smábátahöfnin í Gróf var byggð og tekin í notkun á árunum 1991-95 og eru flotbryggjur ásamt festingum í grunninn frá þeim tíma þó festarkeðjur og fleira hafi verið endurnýjað í tímanna rás. Farið verður í úttekt á ástandi mannvirkjanna í byrjun ársins 2021 og viðhalds- og endurbótaþörf metin.

Keflavíkurhöfn

Endurbæta þarf aðstöðuhús á aðalkanti með hliðsjón af þjónustu við farþega skemmtiferðaskipa sem munu koma til hafnarinnar á komandi árum. Hækkandi sjávarborð kallar á að aðstaða til landtenginga þarf að bæta. Stefnt er að því að leggja af gömlu bryggjurnar og finna þeim annað hlutverk.

Njarðvíkurhöfn

Hafnarmannvirkin í Njarðvíkurhöfn þurfa endurbóta við með hliðsjón af því að höfnin mun verða aðal þjónustuhöfn Reykjaneshafnar í framtíðinni, jafnt í sjávarútvegi sem annarri starfsemi. Stefnt er að hefja á árinu byggingu skjólgarðs og dýpkun innan hafnar sem skapar umgjörð fyrir annarri uppbyggingu fyrirtækja á hafnarsvæðinu.

Helguvíkurhöfn

Á Norðurbakka þarf að huga að vatnslokum og vatnstenginum. Holrými er undir hafnarþekjunni sem þarf að brjóta upp og fylla undir. Aðstöðuhúsið liggur undir skemmdum sem þarf að bregðast við. Sjóvörn austan við viðlegukantinn skemmdist í óveðri og huga þarf að endurbótum. Ef af verkefnauppbyggingu á iðnaðarsvæðinu í Helguvík verður þarf að lengja viðlegukantinn um 100 metra í vestur og 60 metra í norður.

Á Olíubryggju þarf að huga að lýsingu meðfram girðingu, meðfram akstursbraut að viðlegukerum, á viðlegukerum og við alla landfestipolla. Fenderar/fríholt á kerum eru komin til ára sinna og þurfa endurnýjunar við.

Hafnahöfn

Hugmyndir eru uppi um móttökuaðstöðu í Hafnahöfn fyrir léttabáta smærri skemmtiferðaskipa. Slíkt kallar á uppbyggingu en engar ákvarðanir hafa verið teknar um slíkt að svo stöddu.

Lóðir og lendur

Skipuleggja þarf svæðið í kringum smábátahöfnina í Gróf með hliðsjón af hugmyndum um framtíðaruppbyggingu þar í tengslum við ferðamennsku, skipuleggja nærsvæði Keflavíkurhafnar út frá sömu sýn og skipuleggja landsvæðið upp af Njarðvíkurhöfn með hliðsjón af breyttum forsendum þar. Skoða þarf aðstöðu Aalborg Portland við Helguvíkurhöfn með hliðsjón af framtíðarþörf fyrirtækisins og fara þarf í lóðarframkvæmdir í tengslum við uppbyggingu Thorsil ehf. á svæðinu.

Fjármál

Reykjaneshöfn endurfjármagnaði skuldir hafnarinnar gagnvart Lánasjóði sveitarfélaga á þessu ári. Rekstur hafnarinnar stendur að óbreyttu undir skuldbindingum gagnvart lánasjóðnum en leita þarf samkomulags við Reykjanesbæ varðandi skuldbindingar hafnarinnar gagnvart bænum. Almennt er stefnt að því að framlegð fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði ekki undir 35% en meðan á alheimsfaraldrinum COVID 19 stendur er fyrirsjáanlegt að svo verður ekki en gætt verður að jafnvægi í rekstrinum þannig að hann skili jákvæðri niðurstöðu í EBIDTU. Fyrirhuguð uppbygging hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur á athafnasvæði Njarðvíkurhafnar kallar á framkvæmdir á vegum hafnarinnar ef af verður. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 og næstu ára þar á eftir er gert ráð fyrir þeirri fjárfestingu og fjármögnun hennar.

Back To Top